Vatnsberinn: Ótrúlega spennandi ár í vændum
Vatnsberinn er frá 20. janúar til 18. febrúar.
Elsku vatnsberinn minn.
Árið þitt hefst með alls kyns drama sem aðrir kynda undir í kringum þig, þú ert sterkari en nokkru sinni áður því þú lætur þér fátt um finnast. Þú færð töluna 11 sem er aðaltalan á þessu ári og gerir hún líf þitt svo endalaust magnaðra, miklu meira spennandi og lætur þig einnig vera kærulausari og það er einmitt sem þú þarft.
Marsmánuður ber töluna þrjá til þín og það er tími til að slaka á, skemmta sér og taka lífið alls ekki of alvarlega því þú kemst ekki lifandi frá því hvort sem er! Ástarorka er yfir vorinu og þeir sem vilja leggja sér leið í faðm einhvers býðst eitt og annað, vonandi eitthvað skemmtilegt og spennandi, elsku vatnsberi. Margir eru ákveðnir að standa einir, keikir og sterkir og það er líka virðingarvert.
Sumarið verður þér ljúft, gefðu þér lítinn tíma í það sem gerist á morgun eða í gær. Þú verður að passa að finna ekki fyrir leiða því leiðinn lætur þig halda að eitthvað sé að en það er það alls ekki. Þú hefur svo sterkt ímyndunarafl og kraft til að magna þig upp – veikindi sem vart eru til staðar, þunglyndi eða áhyggjur sem þú velur þér bara, þú þarft að hrista þig til og henda áhyggjum út!
Þú munt endurnýja gamlan vinskap sem eitthvað rifrildi var í kringum og maður er alltaf meiri maður ef maður getur sagt „fyrirgefðu“ þó þú eigir ekki sök á hlutunum.
Þitt ótrúlega ástríðufulla eðli og ástin sem þú berð gagnvart dýrum og mönnum sýna þig í réttu ljósi og þér líkar betur og betur við sjálfan þig. Þú getur skilið við maka, vini og fósturlandið og vertu því glaður að líka við þig sem persónu, þetta er mikilvægt. Þú ætlar að gera ofboðslega mikið fyrri helming árs. Þetta veldur þér bara þreytu og skalt frekar velja úr verkefnum því nóg verður af þeim. Þú vilt skila verkunum óaðfinnanlega og verður pirraður ef aðrir hugsa minna um smáatriði en þú.
Seinni hluta árs verður þú afskaplega áberandi, fólk tekur eftir þér hvort sem þú vilt það eður ei. Það verða einnig miklar breytingar á bæði innri orku og útliti og þetta er eitthvað sem þú ákveður snemma árinu að gera og munt standa við það. Það borgar sig ekki að vera með nein leikrit í ástarmálunum heldur vera hreinskilinn og einlægur, það virkar alltaf best.
Þessi fallegi hugur og útgeislun eru tveir aðalþættirnir sem nauðsynlegt er að samræma, þú gerir þér fyllilega grein fyrir því þú vekur athygli fyrir hvað sem þú gerir og hvert sem þú ferð.
Gleðilegt ár elsku vatnsberinn minn.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Vatnsberahálsmen með stjörnumerki og álfaletri
Frægir Vatnsberar
Bob Marley reggaesöngvari, tónlistarmaður og gítarleikari. 6. febrúar 1945.
Christiano Ronaldo atvinnumaður i fótbolta. 5. febrúar 1985.
John Travolta leikari og dansari. 18. febrúar 1954.
Jennifer Aniston leikkona. 11. febrúar 1969.
Justin Timberlake söngvari, lagahöfundur og leikari. 31. janúar 1981.
Þórhallur Sigurðsson leikari, söngvari, tónskáld, skemmtikraftur og myndlistarmaður. 20. janúar 1947.