Hrútur: Skipuleggðu eins og þú sért fyrirtæki
Hrúturinn er frá 21. mars til 19. apríl
Elsku hrúturinn minn.
Það er alveg sama hvað álag brýst inn hjá þér, þú tæklar þetta allt saman. Þú mátt samt leyfa þér að hvílast og vera ekki pirraður þó þú frestir hlutum eða verkefnum. Slíkt gerist af þeirri ástæðu að þú tekur yfirleitt of mikið að þér. Þó þú komir ekki öllu í verk og getur ekki sinnt þínum nánustu elska þeir þig svo mikið að þér er alltaf allt fyrirgefið.
Þetta er búið að vera rosa mikið ár og miklar breytingar; sem sagt lífleg bíómynd sem þú ert að taka þátt í! Í desember verður töluvert fát á þér, hvatvísin kannski stundum of ríkjandi. Þú þarft alltaf að skipuleggja þig eins og þú sért fyrirtæki. Þannig skoðarðu grunninn, hverju þú getur breytt, hvað sé best fyrir þig og hver einasti dagur verður að vera skrifaður upp áður en þú leggur aftur augun. Á því tímabili ertu næmastur og færð sterkustu skilaboðin frá alheimsnetinu. Um leið og þú byrjar á þessu verður ekkert sem getur klórað þig, bitið eða hrætt. Það er ekki æfingin sem skapar meistarann heldur aukaæfingin.
Gerðu aðeins meira en þú þarft, þá kemur gleðin inn og ánægjan yfir sjálfum þér og þér líður svo miklu betur. Ástarmálin eiga ekkert að vera að þvælast fyrir þér. Annað hvort ertu með ástinni þinni eða ekkert að spá í ástarmálin. Að því sögðu nema um einhvern úr fortíðinni sé að ræða. Ef sá hluti hefur gengið skrykkjótt eða bara alls ekki gengið myndi ég ekki búast við breytingu þar. Tíminn sem er í hönd núna snýst að miklu leyti um að allir séu að tapa peningum, en hann mun gefa þér meiri veraldlega hluti en þú bjóst við.
Á fullu tungli 15 desember: Ekki fara að djamma eða skemmta þér 13. 14. eða 15. des því fulla tunglið (sem er kallað kaldur máni af frumbyggjunum) hefur svo mikil áhrif á þig að þú gætir átt til að stýra lífi þínu í töluverða klessu. Hafðu allt eins rólegt og þú getur yfir þessa daga og alls ekki nota nein hugbreytandi efni. Annars ertu að fara inn í dásamlega góða tíma!
Knús og koss,
Sigga Kling
Hrútahálsmen með stjörnumerki og álfaletri
Frægir Hrútar
Björgvin Halldórsson söngvari. 16. apríl 1951.
Elton John píanóleikari, söngvari og lagahöfundur. 25. mars 1947.
Lady Gaga leikkona, söngkona og lagahöfundur. 28. mars 1986.
Robert Downey Jr. leikari. 4. apríl 1965.
Victoria Beckham söngkona og fatahönnuður. 17. apríl 1974.
Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands frá 1. ágúst 1980 til 1. ágúst 1996, var fyrsta konan í heiminum sem var kosin forseti í almennum kosningum. 15. april 1930.