Ljón: Ef öfundin væri virkjuð þá þyrfti ekkert rafmagn
Ljónið er frá 23. júlí til 22. ágúst.
Elsku Ljónið mitt, þú ert fæddur hér á jörðina til að skreyta hana litum. Það taka allir eftir þér hvert sem þú ferð og einnig hefurðu þannig blæbrigði að fólk lítur til þín.
Að sjálfsögðu verður margt slúðrað því ef öfundin væri virkjuð á Íslandi þá þyrfti ekki rafmagn! Hentu þessum köngulóarvef bara af þér og brostu eins og þú sért einn í heiminum, þú ert allavega einstakur í þessum heimi.
Þegar þér finnst að þú finnir ekki leiðina út úr vandanum þá skaltu stunda öndun eða í raun hvað sem er best fyrir þig, fara til dæmis í bað og vera þar lengi, hugsa sem minnst því allt í einu þegar pláss myndast í heilabúinu kemur svarið!
Ef þú rembist og rembist við að gera við þau göt sem þú þarft hverfur máttur þinn og í framhaldi færðu áhyggjur og móral yfir því að hafa ekki gert þetta eða hitt. Það tekur u.þ.b. 22 daga fyrir þig að leysa þessa hnúta, gerðu bara eitt í einu og gefðu þér tíma því það er allt í lagi.
Um leið og þú hugsar að þú gefir þér tíma þá gerist allt á réttu augnabliki – því þú ræður tímanum. Sumir vilja drepa hann, aðrir vilja eyða honum, það eru mikilvæg orðin sem þú segir gagnvart tímanum.
Þú þarft að vera viss í þinni sök í ástinni, það eru margir misvitrir í kringum þig og þú átt ekki að gefa þér tíma til að athuga hvort þessi passi við þig eða hinn. Þú ert svo ástríðufullur og einlægur en láttu ekki heldur skemma það.
Það verður einhvers konar leiðrétting gerð í lífinu þínu, svipað eins og með skattframtalið og fólk fær endurgreitt, þú færð endurgreitt í einhvers konar formi frá einhverjum. Það elskar þig ótrúlegasta fólk og fyrst svo er ætti að vera kominn tími til að þú elskir sjálfan þig meira.
Það er frjósemi í kringum þig, gæti tengst börnum eða fjölskylda þín og vinahópurinn stækkar, einnig ferð þú að læra og þar er eitthvað sem eflir og stækkar persónu þína.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Fræg Ljón
Antonio Banderas kvikmyndaframleiðandi og leikari. 10. ágúst 1960.
Ben Affleck kvikmyndaframleiðandi og leikari. 15. ágúst 1972.
Gunnar Nelson bardagaíþróttamaður. 28. júlí 1988.
Jennifer Lopez dansari, söng- og leikkona. 24. júli 1969.
Mick Jagger söngvari Rolling Stones, lagahöfundur, leikari og dansari. 26. júlí 1943.
Tómas Lemarquis leikari. 3 ágúst 1977.