Bogmaður: Hik er sama og tap
Bogmaðurinn er frá 22. nóvember til 21. desember.
Elsku Bogmaðurinn minn, það er svo merkileg orka í kringum þig alveg fram að áramótum og hún hljómar sérstaklega hávær – að hika er sama og tapa. Ekki hugsa þig of mikið um, ekki bíða eftir að eitthvað gerist, farðu að framkvæma undirstöður á því sem þér finnst spennandi og skoðaðu vel: Ef þér líður illa í vinnunni er það eins og vont hjónaband sem þú þarft að gera eitthvað í. Ekki halda áfram í þeim hjólförum sem draga þig niður því orkan yfir þetta tímabil er engri lík.
Það er næstum eins og þú gætir tínt stjörnurnar af himingeimnum og leikið þér að þeim. Það er enginn vegur að þú berir skynbragð á hversu fljótt breytingarnar gerast og allt er orðið öðruvísi en það var. Vertu sannfærandi við sjálfan þig, talaðu upphátt við sjálfan þig þar sem það gefur þér betri orku til að stjórna þessari bíómynd er kallast lífið! Tíðnin á nefnilega til að tvöfaldast þegar þú heyrir talaðar setningarnar um það sem þú vilt að birtist þér.
Svo tvöfaldaðu ánægjuna og hamingjuna á þessu tímabili. Í lukkuhjólinu eru tölurnar 8, 12 og 18. Treystu ekki tungumjúkum orðum, þú finnur í hjarta þínu ef falsheit eða fölsk manneskja er fá þig á sitt band. Í þeim aðstæðum þarftu að vera sniðugur, það er hægt að segja „nei“ á margan máta. Það verður eitthvað um sem þér var lofað en því miður verða loforð ekki uppfyllt. Láttu það ekki taka þig alveg niður því í þessari stöðu færðu betri möguleika með öðru fólki eða með annarri staðsetningu. Fegurð og kraftur verður í ástinni, gef þú ástinni enn meiri tíma en þú hefur gert nú þegar, það leysist allt svo ljómandi vel í tilfinningamálum.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Frægir Bogmenn
Brad Pitt kvikmyndaframleiðandi og leikari. 18. desember 1963.
Bruce Lee bardagalistamaður og leikari. 27. nóvember 1940.
Dame Judi Dench leikkona. 9. desember 1934.
Mads Mikkelsen leikari og dansari. 22. nóvember 1965.
Taylor Swift söngkona. 13. desember 1989.
Tina Turner söngkona, lagahöfundur og leikkona. 26. nóvember 1939.