
Bogmaður: Þú ert opinn fyrir lífinu
Bogmaðurinn er frá 22. nóvember til 21. desember.
Elsku bogmaðurinn minn.
Þú ert blessunarlega fæddur undir bjartri stjörnu og alveg sama hvað þú kemur þér út í finnur þú lausn eða leiðir. Í þér býr einhvers konar ofurhugi og í heila þínum eru afskaplega mörg herbergi þannig það fer þér best að vera með margt á prjónunum.
Þú þarft að taka mikilvægar ákvarðanir fljótlega varðandi tilfinningar eða atvinnu einhvers konar, þetta gæti einnig tengst skóla eða bara öllu sem er í gangi.
Ef þú finnur fyrir kvíða þegar þú hugsar um það sem gera skal þýðir það NEI, því líkami og hugur tala við þig.
Allir vilja hafa þig með í liði þannig þú þarft að æfa þig að segja: „Nei, ég hef ekki tíma núna.“
Einhver persóna er komin inn í líf þitt eða á eftir að koma inn í líf þitt sem á eftir að hafa stórfelld áhrif á þig. Þú gætir hafa tengst henni í fyrra lífi og getur í raun ekki sett fingur á þessi tengsl en það kemur í ljós síðar hvers vegna þessi persóna var send inn í líf þitt.
Þú hefur líka áhrif á hana og eitthvað mikið og merkilegt er að gerast hjá þér. Passaðu bara að hafa tíma til að njóta þess.
Það er sjaldgæft þú dæmir einhvern og þú hefur svo ótrúlega góða nærveru. Þú átt eftir að auðgast en ert fljótur að koma því frá þér, enda ertu svo rausnarlegur elsku bogmaðurinn minn. Ekki fjárfesta í farartæki eða einhverju sem kostar mikið og þú þarft kannski ekki nauðsynlega á að halda.
Eyddu peningunum frekar í gleði og upplifanir. Þú prófar mjög marga nýja hluti á næstu mánuðum og verður svo opinn fyrir lífinu og ég lofa þér því – það er dásamlegt að sjá!
Eitt skaltu muna að þú ert ekki að svíkja einn eða neinn, eina manneskjan sem þú gæti svikið ert þú sjálfur svo ekkert hugsa um það. Þú ert undir tilfinninga- og ástarregnboganum – svo óskaðu þér!
Knús og kossar,
Sigga Kling

Frægir Bogmenn
Brad Pitt kvikmyndaframleiðandi og leikari. 18. desember 1963.
Bruce Lee bardagalistamaður og leikari. 27. nóvember 1940.
Dame Judi Dench leikkona. 9. desember 1934.
Mads Mikkelsen leikari og dansari. 22. nóvember 1965.
Taylor Swift söngkona. 13. desember 1989.
Tina Turner söngkona, lagahöfundur og leikkona. 26. nóvember 1939.