Fiskar: Þú leynist smá harðstjóri í þér
Fiskurinn er frá 19. febrúar til 20. mars.
Elsku Fiskurinn minn, þú ert án efa með gríðarlega blessun yfir þér næstu mánuði. Og þú ert of tilfinningaríkur, stundum of smámunasamur og svo leynist þarna líka smá harðstjóri ef vera vill. Þó allir þessir tónar hljómi hjá þér kemstu yfir alla þá þröskulda sem fyrir þér eru svo taktu ekkert of nærri þér, því að næsta skref sem þú tekur er pottþétta rétta skrefið.
Passaðu þig svo vel á því að tala ekki illa um fólk sem þú vinnur með, vini, vandamenn o.s.frv., því ef þú gerir slíkt kallarðu til þín vesen og þú vilt að sjálfsögðu ekki lenda í því. Þetta á einnig við um slúður, ekki vera með „echo“ slúður sem þú veist ekki 100% að sé rétt.
Ég hef þann sið að ef ég ætla að fara að slúðra um aðra að éta ofan í mig orðin, tyggja þau vel og fara svo á klósettið og skila þeim þar sem þau eiga heima!
Sá gírinn er hjá þér núna að þér bjóðast of mörg verkefni og þú vilt ekki sleppa neinni vinnu svo þú segir of mörg „já“. Þannig kemur þú þér í köngulóarvef sem þú veist alveg að bíður þín ef þú ætlar að gera of mikið, því þú vilt alltaf klára allt upp á 100%. Það væri sniðugt hjá þér að benda á einhvern annan eða athuga hvort vinur þinn geti ekki skoðað eitthvað af því sem þér er ætlað.
Það sópast til þín peningar sem þú verður svolítið fljótur að gera eitthvað við, hvort það sé eitthvað gáfulegt skiptir engu máli. Þú þarft að vita að þú ert á jörðinni til að skemmta þér og breiða út kærleika. Ástin er þarna ef þú vilt grípa í hana en það eru blikur á lofti að spenna sé hjá þeim sem eru í sambandi. Ef svo stendur á er best að skrifa niður fjóra kosti sem maki þinn hefur ef erfiðleikar steðja að og einblína á þá, þá kemur jafnvægið og neistinn eins og skot til baka!
Knús og kossar,
Sigga Kling
Frægir Fiskar
Baltasar Kormákur leikari, kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur. 27. febrúar 1966.
Daniel Craig leikari. 2. mars 1968.
Jökull Júliusson söngvari, gítarleikari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Kaleo. 20. mars 1990.
Ólafur Darri Ólafsson leikari, kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur. 3. mars 1973.
Rihanna söngkona. 20. febrúar 1988.
Rúrik Gíslason fyrirsæta, leikari og tónlistarmaður. 25. febrúar árið 1988.