Meyjan: Þú veist meira, elskar meira og lifir betur
Meyjan er frá 23. ágúst til 22. september.
Elsku meyjan mín!
Þú ert að fara inn í friðsamt ár, en samt sem áður að fara í gegnum töluvert breytingaskeið með sjálfa þig. Þú hreinsar af þér allt sem heldur þér niðri. Þú tengir þig við fólk, félagsskap og allt mögulegt sem gefur þér betra vit eða meira og skarpari hugsun og þú tekur góðar ákvarðanir varðandi við líf þitt.
Þú hefur töluna níu sem er tala alheimsins, jarðarinnar á þessu ári. Sú tala táknar að maður snýr baki við vitleysu eða vondum aðstæðum og hún gefur þér kraft til að standa með þér og segja hugsun þína án þess að láta það á sig fá. Hún táknar einnig að þú ert að hefja tíma sem mun vara um langan tíma, jafnvel nokkur ár í viðbót.
Þetta ár býður upp á umsnúning og gefur möguleika á að næstu ár efli þig á annan hátt en það sem er í kringum þig núna. Þetta er spennandi því maður verður að hafa svolítið krassandi kafla í lífssögunni. Winston Churchill sagði einu sinni: „Ævisagan mín verður skemmtileg því ég kem til með að skrifa hana sjálfur.“ Þú ert nefnilega með hverri hugsun og hverju orði að skapa framtíðina sjálfur.
Þó plánetur himinsins hafi mikil áhrif á þig ert þú samt aðalhöfundurinn. Þú hlustar af meiri athygli á aðra í kringum þig og fylgist betur með öðrum í kringum þig. Þú ert mikill verndari þinna nánustu en slepptu samt tökunum á því sem þú ræður ekki við í þeim hlutum. Allt fer vel varðandi peningamál eða veraldlega hluti og þó það sé á síðustu metrunum eða á síðustu stundu er „Þetta reddast“ heitið á ævisögu þinni.
Þú átt eftir að hafa allt í röð og reglu hjá þér og þú þolir ekki óreiðu. Allt gengur verr hjá þér ef þú hefur ekki þitt yndislega skipulag. Merkúr er plánetan þín en hún er vængjaður sendiboði guðanna. Aðalgjöfin sem þú færð þaðan er hæfileikinn til að eiga skýr samskipti. Þú átt ekki að taka hvert orð bókstaflega, þú átt það stundum til, en það besta við þetta ár er að þú átt eftir að víkka sjóndeildarhringinn, vita meira og elska meira og lifa betur.
Gleðilegt ár elsku meyjan mín.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Meyjuhálsmen með stjörnumerki og álfaletri
Frægar Meyjur
Beyoncé söngkona, textahöfundur og frumkvöðull. 4. september 1981.
Blake Lively leikkona. 25 ágúst 1987.
Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari og fyrrum atvinnumaður í fótbolta. 15. september 1978.
Freddie Mercury söngvari. 5. september 1946.
Kaia Gerber leikkona og fyrirsæta. 3. september 2001.
Keanu Reeves leikari. 2. september 1964.