Naut: Ef þú ert tilbúið í ástina er ástin tilbúin fyrir þig
Nautið er frá 20. apríl til 20. maí.
Elsku besta dásamlega nautið mitt.
Þér er að takast svo vel að geta útilokað óþarfa áhyggjur og vesen. Einnig gengur þér vel að taka ekki til þín annarra manna drama eða gera drama úr því sem engu máli skiptir. Það er svolítið ríkjandi hjá þér að þú getur verið í öllum tilfinningaklasanum, bara yfir daginn. Allt er kannski stórkostlegt, svo geturðu bölvað öllu í sand og ösku eftir klukkutíma.
Tilfinningaríkur tími fer í hönd hjá þér því fjölskylda og vinir eiga svo stóran sess í hjarta þínu. Þessi tími er þér svo ofur-, ofurmikilvægur. Ansi margir í þessu stjörnumerki eru ekki hrifnir af jólunum vegna erfiðra tilfinninga sem ekki hefur verið gengið frá úr fortíðinni. Ef kvíði heilsar upp á er hann ekki út af neinu sérstöku sem er að fara að gerast. Þú þarft að gera upp málin við einhvern en mundu þó þú hafir ekki endilega rangt fyrir skaltu milda hlutina.
Það virðist vera sem þú munir breyta stemningunni yfir aðalhátíðina og þú gerir eitthvað nýtt eða öðruvísi og það verður mikill friður hjá þér. Ef þú ert tilbúinn í ástina skaltu halda eins og þú haldir um hjartað á þér og henda ástarhjartanu, loka augunum, henda því ímyndað frá þér og það mun lenda á réttum stað. Og þó þetta sé ímyndun byrjar alvöru lífsmyndin svona.
Gerðu það sem þú getur sjálfur. Ekki biðja um hjálp frá einhverjum í kringum þig sem hefur alls ekki tíma. Gef þú frekar tíma þinn til að hjálpa öðrum, þá hefst jafnvægistímabil hjá þér. Taktu vinnuna þína ekki of alvarlega. Ef þér finnst hún ekki nægilega ánægjuleg eða það verkefni sem þú ert í er það eins og vont ástarsamband sem þarf að ljúka. Það eru nefnilega skrautlegir tímar í framtíðinni hjá þér og í garði þínum vaxa alls konar blóm og allir litir. Svo breiddu út faðminn og þú sérð þú ert að hefja góða ferð! Ef þú ert leitt, nautið mitt, skaltu taka ákvörðun um að vera glatt, þá breytist þessi líðan.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Nautahálsmen með stjörnumerki og álfaletri
Fræg Naut
David Beckham fyrrum atvinnumaður í fótbolta. 2. maí 1975.
Dwayne Johnson glímukappi og leikari. 2. maí 1972.
George Clooney kvikmyndaframleiðandi og leikari. 6. maí 1961.
Laufey Lín Bing Jónsdóttir söngkona, lagahöfundur og Grammy verðlaunahafi. 23. apríl 1999.
Nanna söngkona og lagahöfundur Of Monsters and Men. 6. maí 1989.
Tinna Bergs fyrirsæta. 3. maí 1985.