Tvíburar: Þú tryggir ekki eftir á
Tvíburinn er frá 21. maí til 20. júní.
Elsku Tvíburinn minn, það er svo mikilvægt að þú skrifir niður og hjá þér hvað þú þarft að gera daginn eftir, næstu viku eða hvað sem er því þegar svona álag ríkir missirðu oft dálítið af minninu. Svo skipulagðu hlutina eftir þínu höfði og láttu símann t.d. minna þig á ef eitthvað er sem þú þarft að vita þann daginn, þá stundina.
Þú lítur vel út, ert geislandi og glaðvær og hressir við fólkið í kringum þig. Þú ert svo hnyttinn og húmorískur að það hálfa væri nóg! Með orðheppninni einni saman heillarðu þá sem þú þarft upp úr skónum og reyndar beint í arma þína ef þú ert á lausu. En þeir sem eru í sambandi skulu passa sig á því að gera ekkert af sér þennan mánuðinn. Allt virðist nefnilega komast upp á þessu tímabili og einnig þarf að skoða vel að segja ekki öllum leyndarmálin sín … því þjóð veit þá þrír vita. Það er gamalt máltæki og er enn 100% rétt.
Það er gott fyrir að hreinsa í kringum þig með salvíu sem er ein tegund eins konar reykelsis sem hefur verið notað í þúsundir ára og með því geturðu hreinsað orku líkamans og líka heimilið þitt. Ef þú finnur yfir þreytu eða þunga inni á heimilinu þarftu að breyta, hreyfa til hluti og hafa mikið af ljósum. Þetta er alveg eins og þegar þú ferð í önnur föt, þá klæðirðu þig í það tilefni sem þú ert að fara í, eins og Dorrit sagði: „Ég klæði mig í daginn“. Einnig þarf orkan á heimilinu tilbreytingu til að orkutíðnin verði betri og henti þér. Það verður mikið um veisluhöld á næstunni, passaðu þig að drekka samt hóflega ef þú á annað borð færð í glas, því þú tryggir ekki eftir á.
Knús og kossar,
Sigga Kling
Frægir Tvíburar
Anita Briem leikkona. 29. maí 1982.
Clint Eastwood leikari og framleiðandi. 31. maí 1930.
Johnny Depp leikari og tónlistarmaður. 9. júní 1963.
Nicole Kidman leikkona og Ambassador fyrir UNICEF. 20. júní 1967.
Priscilla Presley leikkona. 24. maí 1945.
Tom Holland leikari. 1. júní 1996.