Vatnsberi: Það þarf að taka ákvörðun
Vatnsberinn er frá 20. janúar til 18. febrúar.
Elsku Vatnsberinn minn, þú hefur svo góðar undirstöður og hefur átt áður fyrr svo magnaða kafla í lífsbókinni þinni. Alls ekki vera of viðkvæmur og taka inn á þig neinn ljótleika sem passar ekki við þína merkilegu sál. Ef ástin er ekki að gefa þér það sem þú þarft og þér finnst ekki þú viljir gefa ástinni það sem hún vill, getur verið tími til að hugsa málið, rétti tíminn til að taka skýra ákvörðun. Þegar þú tekur þessa ákvörðun færðu þann styrk sem þig skortir.
Þetta er mjög merkilegur mánuður sem tengir þig við frið, betri stöðugleika og þú verður sterkari með hverjum deginum sem líður á þessu tímabili. Það er að myndast hjá þér nýtt áhugamál eða -svið sem þú verður hugfanginn af. 10. nóvember, 14., 15. og 16. nóvember – þetta eru dagarnir sem senda þér skýr skilaboð og aukið þrek til að byrja á nýju eða loka einhverjum málum, loka einfaldlega því sem er að hindra þig og horfast í augu við það sem þú hefur hræðst. Þá sérðu að þetta er auðveldara en þú nokkurn tíma bjóst við.
Hugrekki er einkunnarorð þessa mánaðar og með hugrekki byggirðu upp hamingjuna. Slepptu því alveg að hugsa langt fram í tímann, um hvað gæti orðið ef þetta gerist … þú gætir alveg bara eins orðið yfir strætó á morgun, því það eina sem þessar hugsanir gera er að herpa hjarta þitt og lama kraftinn. Þú ert forstjórinn yfir heila þínum, sálin býr í hjartanu en það er nú samt svo að þú sjálfur býrð í sálinni. Skilaboðin eru sterk um þetta mikla ímyndunarafl sem þú hefur gert þig að persónu sem er góð í að skapa, gera heimilið yndislegt og búa til ljós … þó það sé myrkur!
Knús og kossar,
Sigga Kling
Frægir Vatnsberar
Bob Marley reggaesöngvari, tónlistarmaður og gítarleikari. 6. febrúar 1945.
Christiano Ronaldo atvinnumaður i fótbolta. 5. febrúar 1985.
John Travolta leikari og dansari. 18. febrúar 1954.
Jennifer Aniston leikkona. 11. febrúar 1969.
Justin Timberlake söngvari, lagahöfundur og leikari. 31. janúar 1981.
Þórhallur Sigurðsson leikari, söngvari, tónskáld, skemmtikraftur og myndlistarmaður. 20. janúar 1947.