Krabbinn: Skylda þín að passa upp á þig
Krabbinn er frá 21. júní til 22. júlí.
Elsku krabbinn minn.
Mikil vinna hefur átt sér stað hjá þér og þú hefur verið á fullu að hjálpa öðrum, hafa áhyggjur af einhverju sem skiptir ekki máli. Í kringum 13. til 14. febrúar mun svo koma í ljós að allar þessar áhyggjur voru ástæðulausar. Varðandi þessa daga er eins og það sé stjarna yfir þér sem vísar þér veginn og þú verður miklu öruggari með allt.
Peningamálin virðast ganga alltaf upp og það á að vera í eðli krabbans að eiga alltaf pening í umslagi eða falinn undir dýnunni. Það eina sem verið er að tala um er einhver varúð varðandi hugbreytandi efni, lyf, eitthvað sem þér var skaffað frá lækni eða þess háttar og þú skalt skoða alla hluti sem þú lætur ofan í þig. Í kortunum kemur að kvíði eða erfiðleikar með hugann gætu verið ástæðan.
Ótrúlega falleg tala er yfir árinu hjá þér, talan sjö. Sumir kalla hana heilaga tölu en ég held hún sé ekkert heilagri en aðrar! Ég sé frið, vellíðan, andlega strauma og mikinn möguleika á lækningu ef eitthvað er að hrjá andann eða líkamann. Þú finnur betur á þér hvað á að gera hvort sem það tengist því eða öðru. Þetta gefur þér líka að hlutir skipta þig ekki eins miklu máli og þú getur unnið á fíklinum í þér (því við erum öll fíklar í eitthvað). Ég sé að þú setur því inn jafnvægi og styrk með hjálp andans, sérstaklega yfir sumarmánuðina og það verður alveg fram á næsta ár sem þessi orka verður þér hliðholl.
Talan 23 tengist þér einnig í kringum talnaspekina og ég væri ekki hissa þú sæir hana út um allt á þessu ári. Í september hreinsar þú út og breytir einhverju í kringum þig ef það er eitthvað sem tengist vinnu eða verkefnum. Þú skiptir svo um skoðun hvað þú ætlar að gera á síðustu stundu. Þú hefur svo sterkan og sjálfstæðan vilja, gildir einu hvað öðrum finnst, en samt ertu svo ofur viðkvæmur að þú manst lengi ef einhver hefur leikið þig grátt.
Þó þú kunnir að koma virðulegur fyrir ertu í raun partýljón og partýin verða ótal mörg á þessu ári. Þú dregst svo sannarlega að því dularfulla í veröldinni og átt eftir að kanna möguleikana. Það er há tíðni í kringum okkur öll á þessu ári. Það er einnig mikil hreinsun í kringum þig en við erum á leið inn í vatnsberaöldina. Mörg kerfi eru að hrynja út um allan heim en taktu ekkert af því inn í hjartarótina þína. Þú þarft bara að passa upp á þig, það er skylda þín. Ef þú ert að leita að ástinni, ekki gera það. Hún birtist þér á hárréttum tíma, það er skrifað í skýin.
Gleðilegt ár elsku krabbinn minn!
Knús og kossar,
Sigga Kling
Krabbahálsmen með stjörnumerki og álfaletri
Frægir Krabbar
Lafði Diana Spencer betur þekkt sem Díana prinsessa. 1. júlí 1961.
Margot Robbie leikkona og framleiðandi. 2. júlí 1990.
Meryl Streep leikkona. 22. júní 1949.
Pamela Anderson leikkona og fyrirsæta. 1. júlí 1967.
Stefán Hilmarsson söngvari og textahöfundur. 26. júní 1966.
Tom Cruise leikari. 3. júlí 1962.